Verið hjartanlega velkomin á opnun sýningar Þórhöllu Eggertsdóttur, í Gallerí Göngum, laugardaginn 17. febrúar kl 14-17
Þórhalla Eggertsdóttir fæddist 17. febrúar árið 1954 á Möðruvöllum í Hörgárdal þar sem hún jafnframt ólst upp. Hún er skurðhjúkrunarfræðingur að mennt og starfaði á skurðstofum LSH í Fossvogi lengstan hluta síns starfsferils.
Þórhalla stundaði einnig nám í listfræði við HÍ/LHÍ á árunum 2000 – 2005 meðfram vinnu og sótti námskeið í grunnteikningu við Myndlistarskóla Reykjavíkur. Í framhaldinu sat hún svo margvísleg námskeið í olíumálun við skólann, allt til ársins 2015.
Öll verk sýningarinnar eru olíumálverk sem flest eru unnin á síðustu tveimur árum. Þórhalla er mikill náttúruunnandi og útivistarkona sem endurspeglast gjarnan í verkum hennar, þó eru verkin oft á tíðum óhlutbundin af stað og stund. Þórhalla rekur vinnustofu á Grandagarði ásamt níu öðrum áhugamálurum.
Sýningin Tímamót er haldin í Gallerí Göngum í tilefni 70 ára afmælis Þórhöllu og stendur frá 17. feb. – 17. mars 2024. Þórhalla mun vera á staðnum alla laugardaga milli kl. 14 – 16 á meðan sýningin stendur yfir.
