Fjöldi áhugasamra þátttakenda lögðu sitt af mörkum í Háteigskirkju í gær, sunnudag 19. okt., fyrir verkefnið JÓL Í SKÓKASSA sem KFUM og KFUK standa fyrir og gengur út á að útbúa jólagjafir handa munaðarlausum börnum í Úkraínu. Unnið var að verkefninu í Setrinu, kaffistofu á jarðhæð safnaðarheimilis Háteigskirkju, að lokinni fjölskylduguðsþjónustu. Um var að ræða fallega og gefandi samverustund en útkoman var fjöldi góðra, fallegra og nytsamlegra jólagjafa fyrir börn á öllum aldursbilum. Allar gjafirnar innihalda amk einn hlut úr hverjum af eftirfarandi fimm flokkum: LEIKFÖNG, SKÓLADÓT, HREINLÆTISVÖRUR, SÆLGÆTI og FÖT. Háteigskirkja lagði margt til, hugljúfar ömmur sendu hlýjar heimaprjónaðar flíkur og þátttakendur komu einnig færandi hendi.
Háteigskirkja sér um að koma frágengnum jólakössum til KFUM og KFUK á Íslandi, sem sjá svo um að koma jólagjöfunum til munaðarlausra barna í Úkraínu.
Hjartanlegar þakkir til allra sem tóku þátt!
Myndir af viðburðinum fylgja.
Sjá nánar hér um verkefnið:
https://www.kfum.is/skokassar/







