Hugleiðingar eftir sr. Helgu Soffíu Konráðsdóttur

Á bláþræði.

Lítil saga af spenvolgri mjólk. 

Ljósið loftin fyllir

og loftin verða blá.

Vorið tánum tyllir

tindana á.

Þetta ljóð Þorsteins Gíslasonar, sem telur 6 erindi, söng mamma mín iðulega. Það hefur sennilega leitt til þess að mér þykir þetta eitt fallegasta ljóð sem ort hefur verið á íslenska tungu, svo leikandi létt og gegnsætt, fullt af von og gleði hversdagsins. Það er líka góð lýsing á mömmu sem var glöð og skemmtileg kona og söng mjög fallega. Hún var fædd 1916 og dáin 2005.

Þegar hún var tveggja ára fékk hún spönsku veikina og var vart hugað líf. Sagan af því hvernig litla barnið barðist fyrir lífi sínu hefur varðveist sem helgisaga í fjölskyldu okkar. Faðir hennar, Helgi Skúlason, kennari og bóndi á Herríðarhóli í Holtum hélt á henni í fanginu dægrin út og inn og lét bera í barnið spenvolga mjólk úr kúnum sem eldri systkini hennar skiptust á um að sækja. Litla barnið braggaðist og lifði og þakkaði það síðar meir árvekni og elsku föður síns og hans spenvolgu og næringarríku mjólk. Henni var ekkert meint af nema að því leyti að hún varð seinni til tals en önnur börn. “En þegar ég loksins lærði að tala þá héldu mér engin bönd,” sagði hún kankvís síðar.

Það að smitast af spönsku veikinni og lifa sjúkdóminn af hefur sennilega veitt henni aukinn viðnámsþrótt og ónæmi gegn ýmsum sjúkdómum. A.m.k. var hún sérlega heilsuhraust á sinni tíð og varla nokkurn tíma misdægurt. Hún minntist þess að faðir hennar hafði yfir henni blessunarorðin: “Drottinn blessi þig og varðveiti þig … ” Þetta var sennilega það besta sem hún vissi og kunni og sagði við mig, dóttur sína, rétt fyrir andlátið: “Helga mín, þú mátt aldrei gleyma blessunarorðunum.”

Ég þekkti litla stúlku sem taldi það sínar sælustu stundir þegar hún sat með pabba sínum og hann sagði henni sögur frá þeim tíma þegar hann var lítill. Alltaf voru þetta sömu sögurnar aftur og aftur sem hljómuðu sem hin stórkostlegustu ævintýri í munni hans. Þetta voru endurminningar úr bernsku hans og æsku frá Eyrarbakka, Borgarnesi, Vík í Myrdal. Hún sagði eitthvað sem svo: “Pabbi, segðu mér frá því þegar þú dast á glerbrotið í fjörunni í Borgarnesi og það kom stórt gat á hnéð og það blæddi og þú fórst að gráta. Ha, pabbi, gerðu það.” Svo kom sagan og frásagnargleði hans var við brugðið, hún var vönduð og fölskvalaus. Þessar stundir þeirra voru sannkallaðar gæðastundir og mátti vart á milli sjá hvort þeirra feðgina naut þeirra betur.

Það kemur fyrir að það lýkst upp fyrir okkur að lífið hangir á bláþræði. Þetta vitum við öll en hvort við höfum það oft í huga er annað mál. Enda er farsæl lífsafstaða fólgin í því að vera jákæður og njóta hverrar stundar í einlægri lífsnautn er þakkar allt hið góða sem lífið færir okkur í skaut. En kynslóðin sem segir frá hér að ofan var mjög meðvituð um fallvaltleika tilverunnar og sagði því sem svo þegar fólk t.d. kvaddist: “Við sjáumst á morgun – ef Guð lofar.” Allt líf hangir á bláþræði, lífið er eiginlega barátta upp á líf og dauða frá fyrstu til síðustu mínútu. Þá er gott að vita á hvern við trúum, hvar traust okkar og trúnaður liggur, að vita hver haggast ekki þegar “björgin hrynja og hamravirkin svíkja.” Það er djúpstæður lífsskilningur kristinnar trúar að þeim sem Guð elska samverki allt til góðs. Hversu mótdrægt sem lífið er, hversu langt frá gleði og von sem líf sérhvers manns getur verið kemst hann aldrei svo langt inn í myrk skúmaskot tilverunnar að augu Drottins sjái hann ekki og að hjarta þess sama Drottins finni ekki til með sorg og einsemd mannsins. “Drottinn blessi þig og varðveiti þig, Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur, Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.” (Fjórða Mósebók 6:24-26).

Til umhugsunar í aðdraganda páska.
Hugleiðingar
eftir sr. Eirík Jóhannsson,
myndirnar valdi Fanney Eiríksdóttir

9/9 Sólin hún skín

Biblíutexti

1 En í afturelding fyrsta dag vikunnar komu þær til grafarinnar með ilmsmyrslin sem þær höfðu búið. 2 Þær sáu þá að steininum hafði verið velt frá gröfinni 3 og þegar þær stigu inn fundu þær ekki líkama Drottins Jesú.[ 4 Þær skildu ekkert í þessu en þá brá svo við að hjá þeim stóðu tveir menn í leiftrandi klæðum. 5 Þær urðu mjög hræddar og hneigðu andlit til jarðar. En þeir sögðu við þær: „Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra? 6 Hann er ekki hér, hann er upp risinn.[ Minnist þess hvernig hann talaði við yður meðan hann var enn í Galíleu. 7 Hann sagði að Mannssonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur en rísa upp á þriðja degi.“
8 Og þær minntust orða hans, 9 sneru frá gröfinni og kunngjörðu allt þetta þeim ellefu og öllum hinum.

Hugleiðing

Það er sunnudagur, dagur sólarinnar, dagurinn sem dregur nafn sitt af upprisudegi frelsarans. Þannig er sérhver sunnudagur upprisuhátíðardagur og kristnir menn ganga til messu til að fagna upprisu frelsarans, sigurs lífsins yfir dauðanum. Þannig er páskadagur, sunnudagur sunnudaganna. Í afturelding, semsagt jafnvel enn í myrkri en tekið er að djarfa fyrir nýjum degi, það er roði í skýjum í austri og senn mun grilla í gullna rönd yfir fjallsbrún. Nýr dagur er að vakna, þessi dagur er einstakur því hann færir mönnum nýjan túlkunarlykil að tilverunni.

Við erum hér að tala um sögulegan atburð sem hafði gríðarleg áhrif á gang sögunnar. í kjölfarið urðu til ný trúarbrögð sem byggðu á þessari nýju sýn þessari von þess efnis að lífið sé sterkara en dauðinn. Að hin jákvæðu öfl séu og verði sterkari en það sem neikvætt er og ranglátt. Að sköpunin standi enn yfir og henni sé viðhaldið sérhverja stund af kærleiksríkum Guði. En um leið standa atburðir þessara dramatísku daga fyrir átök og innri togstreitu milli þess sem byggir manninn upp og þess sem brýtur niður. Okkur getur fundist sem tvísýnt sé með úrslitin og sannarlega hefur það oft verið svo. Það hefur kostað mikla baráttu að vernda lífið réttindin friðinn. Í dag fagnar kristið fólk um heiminn allan. Við höfum fengið að vita að lífið það er sterkara en dauðinn. Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði, fögnum og verum glöð á honum.

Til umhugsunar í aðdraganda páska.
Hugleiðingar
eftir sr. Eirík Jóhannsson,
myndirnar valdi Fanney Eiríksdóttir

8/9 Milli vonar og ótta.

Hugleiðing

Þessi dagur milli dauða og upprisu er eiginlega hvergi nefndur í guðspjöllunum. Hins vegar má ráða af samhenginu, einkum því sem sagt er frá þegar konurnar koma að gröfinni og hlaupa svo til að segja frá, að amk. hluti lærisveinanna  og þeirra áhangenda hafi eiginlega farið í felur. Látið lítið fyrir sér fara, bæði af ótta við ofsóknir og sömuleiðis af sorg og depurð. Allar hinar miklu vonir  og væntingar, eiginlega hálfgerð sigurvíma sem hlýtur að fylgja því að vera í föruneyti manns sem vinnur kraftaverk, læknar sjúka og reisir látna upp frá dauðum og talar eins og sá sem valdið hefur og viskuna. Svo er skyndilega eins og allt sé hrunið til grunna.

Þetta er eiginlega dagur biðar, dagur þar sem tíminn stendur í stað og ekkert gerist. Svo einkennilega vill til að einmitt um þessar mundir eru þúsundir hér á landi í sambærilegri stöðu, er gert að halda sig heima, hitta og umgangast enga. Þetta er eins konar biðstaða, hlé frá lífinu fyrir utan, lífinu athöfnunum sem annars einkenna daglegt líf. Hvenær  mun því linna, hvað mun taka við? Verður allt eins og áður eða…

Hin postullega trúarjátning segir: steig niður til heljar…

Sjálfsagt má túlka þetta á margan hátt en það má sjá í þessu vísun til þess að kafað sé í djúp hugarfylgsna sinna, það getur verið tvíeggjað að ganga til móts við tilfinningar sínar, sögu sína, vonir sínar og vonbrigði. Og framtíðin er óljós engin veit hvað gerist. Hver hefði trúað því að allur heimurinn væri undirlagður og í raun lamaður á stuttum tíma.

En er þá eitthvað jákvætt við þennan dag, ástand af þessu tagi? Í sjálfu sér ekki en samt má segja að við höfum mörg hver gott af því að losna um stund við þá sjálfstýringu sem við erum gjarnan á í önnum dagsins, þar sem tíminn og orkan fer í það að bregðast við áreiti af ýmsum toga. Núna gefst tími til að hugsa, bíða og jafnvel vona. Það er alls ekki endilega ánægjulegt en það gæti samt sem áður verið gagnlegt.

Stundum sjáum við úti í náttúrunni egg sem lent hefur á annarlegan stað. Mun verða að því hlúð, mun lífið sem bærist innra með því ná að brjótast út? Þeirri spurningu er ekki svarað enn, hvað mun gerast á morgun?

7/9 Dauðans angist

7/9

 

Biblíutexti:

39 Annar þeirra illvirkja sem krossfestir voru hæddi hann og sagði: „Ert þú ekki Kristur? Bjargaðu sjálfum þér og okkur!“
40 En hinn ávítaði hann og sagði: „Hræðist þú ekki einu sinni Guð og ert þó undir sama dómi? 41 Við erum það með réttu og fáum makleg gjöld fyrir gerðir okkar en þessi hefur ekkert illt aðhafst.“ 42 Þá sagði hann: „Jesús, minnst þú mín þegar þú kemur í ríki þitt!“
43 Og Jesús sagði við hann: „Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís.“(Lúk.39-43)

Hugleiðing

Þessi dagur, þegar við minnumst þess að Jesús var tekinn af lífi er í raun eins konar táknrænn dagur um ósigur og vanmátt mannsins, hvernig ranglæti og grimmd getur náð yfirhönd og troðið undir viðleitni manna til að byggja upp samfélag réttlætis og réttinda. Þetta er stöðug barátta og ekki síður er hún háð víða um heim enn í dag. Engu að síður hefur margt áunnist og mannréttindi í heiðri höfð.

Biblíutextinn sem hér er valinn segir frá samskiptum þeirra þriggja sem nú bíða síns kvalafulla dauða. Við vitum ekkert um sögu hinna tveggja, hverjir þeirra glæpir voru, við hvaða aðstæður þeir höfðu búið, hvaða atburðarás hafði borið þá að þessari niðurstöðu. Við heyrum bara þessi orðaskipti sem á margan hátt endurspegla kunnugleg viðhorf og viðbrögð. Annar þeirra beitir fyrir sig kaldhæðni, orð hans gefa til kynna beiskju og innri reiði sem brýst út í því að niðurlægja  og hæða og sömuleiðis ef mögulegt er, að sleppa undan þeim dómi sem bíður. Enga sjálfsskoðun er að sjá eða mögulega iðrun. Að baki virðist vera sú mannlega tilhneiging að horfast ekki í augu við eigin ábyrgð heldur leita uppi blóraböggul annarsstaðar, það er alltaf einhverjum öðrum að kenna, þegar útaf ber.

Hinn ræninginn bregst við á annan hátt, þarna sem hann bíður dauða síns er hann sér meðvitaður um mun á réttu og röngu, það getur aldrei verið rétt að úthella saklausu blóði, hann viðurkennir sína eigin sekt og sér hana jafnvel skýrar frammi fyrir einstaklingi sem hefur ekkert til saka unnið en á nú að hljóta sömu örlög. Rauður þráður í boðun Jesú Krists er einmitt frelsi mannsins og sú ábyrgð sem hann þess vegna ber á sjálfum sér, að hann ræki og noti áttavita samviskunnar til að leiðbeina sér á lífsins vegi. Það er alls ekki alltaf auðvelt og getur kostað tár og svita en samt er það þess virði, það er í því fólgin viss frelsun sem þiggur að launum þessi ótrúlegu orð,“ Í dag skalt þú vera með mér í Paradís“.

6/9 Síðasta sýnikennslan

6/9 Síðasta sýnikennslan

Biblíutexti

1 Hátíð páskanna var að ganga í garð. Jesús vissi að stund hans var komin og að hann færi burt úr þessum heimi til föðurins. Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá uns yfir lauk.
2 Kvöldmáltíð stóð yfir. Djöfullinn hafði þegar blásið því í brjóst Júdasi, syni Símonar Ískaríots, að svíkja Jesú. 3 Jesús vissi að faðirinn hafði lagt allt í hendur honum, að hann var frá Guði kominn og var að fara aftur til Guðs. 4 Hann stóð upp frá máltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig. 5 Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum sem hann hafði um sig. 6 Hann kemur þá að Símoni Pétri sem segir við hann: „Drottinn, ætlar þú að þvo mér um fæturna?“
7 Jesús svaraði: „Nú skilur þú ekki hvað ég er að gera en seinna muntu skilja það.“
8 Pétur segir við hann: „Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.“ Jesús svaraði: „Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér.“ 9 Símon Pétur segir við hann: „Drottinn, ekki aðeins fætur mína, líka hendurnar og höfuðið.“
10 Jesús segir við hann: „Sá sem laugast hefur þarf ekki að þvost nema um fætur.[ Hann er allur hreinn. Og þið eruð hreinir, þó ekki allir.“ 11 Hann vissi hver mundi svíkja hann og því sagði hann: „Þið eruð ekki allir hreinir.“
12 Þegar hann hafði þvegið fætur þeirra, tekið yfirhöfn sína og sest aftur niður sagði hann við þá: „Skiljið þér hvað ég hef gert við yður? 13 Þér kallið mig meistara og Drottin og þér mælið rétt því það er ég. 14 Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur. 15 Ég hef gefið yður eftirdæmi að þér breytið eins og ég breytti við yður. 16 Sannlega, sannlega segi ég yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans né sendiboði meiri þeim er sendi hann. (Jóh.13:3-16)

Hugleiðing

Jesús var altaf að kenna og líkt og einkennir alla góða kennara þá beitti hann fjölbreyttum kennsluaðferðum. Það voru fyrirlestrar, dæmisögur, sýnikennsla af ýmsu tagi. Stundum var nemendunum sjálfum gert að ráða í merkinguna en stundum fengu þeir beina útskýringu á því sem sagt var og gert. Honum var mikið í mun að fólkið skyldi merkingu þess sem hann sagði og gerði. Hann vildi að það raungerðist í lífi og athöfnum þeirra sem hann mætti og einkum þeirra sem fylgdu honum. Þessu hélt hann áfram til hinnstu stundar ef svo má segja. Textinn hér á undan segir frá síðasta kvöldinu þeirra saman, þeir höfðu snætt saman páskamáltíð í anda hefðarinnar. Jesús hafði meira að segja sagt þeim að þannig skyldu þeir minnast sín, með einfaldri máltíð. En hann gerði meira og því hafa þeir örugglega aldrei gleymt. Hann tekur til við að þvo fætur þeirra. Þetta óþrifaverk var yfirleitt ætlað þrælum eða ambáttum. Hann hafði auðvitað skynjað hversu djúpt það liggur í sálarlífi flestra að vilja hreykja sér upp, öðlast virðingu og völd. Hann hafði séð hvernig þessi þrá þessi freistni mengaði sálarlíf fólks og spillti samkennd þeirra, rýrði traust milli þeirra. Ég sem er ykkar lærimeistari læt það verða mitt síðasta verk að veita ykkur þjónustu. Þessi tilhneiging mannssálarinnar hefur ekkert breyst, enn er fólk sem vílar ekkert fyrir sér í því augnamiði að komast til valda, og komist það í slíka stöðu þá er öllum brögðum beitt til að halda í valdastólinn, virðingarsessinn. Þess vegna er það mikils um vert fyrir alla kristna, menn og konur að meðtaka þessa fræðslu og leitast við að lifa í anda hennar. Þiggja þvottinn, líknandi hreinsun vatnsins.

 

5/9 Að missa kjarkinn

5/9 Að missa kjarkinn.

Biblíutexti

“54 En þeir tóku Jesú höndum og leiddu brott og fóru með hann í hús æðsta prestsins. Pétur fylgdi eftir álengdar. 55 Menn höfðu kveikt eld í miðjum garðinum og sátu við hann og Pétur settist meðal þeirra. 56 En þerna nokkur sá hann sitja í bjarmanum, hvessti á hann augun og sagði: „Þessi maður var líka með honum.“
57 Því neitaði hann og sagði: „Kona, ég þekki hann ekki.“
58 Litlu síðar sá annar maður Pétur og sagði: „Þú ert líka einn af þeim.“
En Pétur svaraði: „Nei, maður minn, það er ég ekki.“
59 Og að liðinni um það bil einni stund fullyrti enn annar þetta og sagði: „Víst var þessi líka með honum enda Galíleumaður.“
60 Pétur mælti: „Ekki skil ég hvað þú átt við, maður.“
Og jafnskjótt sem hann sagði þetta gól hani. 61 Og Drottinn vék sér við og leit til Péturs. Þá minntist Pétur orða Drottins er hann mælti við hann: „Áður en hani galar í dag muntu þrisvar afneita mér.“ 62 Og hann gekk út og grét beisklega.”(Lúk. 22:54-62)

Hugleiðing

Pétur er held ég sá úr hópi lærisveinanna sem oftast er nefndur og gjarnan á mikilvægum stundum. Hann er vitni að ummynduninni á fjallinu, hann vill ganga á vatninu til Jesú og það er hann sem vitnar að Jesú sér Kristur sonur hins lifanda guðs. Við vitum að hann var fiskimaður á Galíleuvatni. Hann var duglegur og hreinn og beinn. Þegar Jesú segir þeim að nú fari að styttast í hans veru og hann verði brátt tekinn höndum þá segist Pétur vera reiðubúinn að ganga í dauðann fyrir Jesú. En Jesús dregur það í efa og segir að sú stund muni koma að hann muni afneita honum. Textinn hér á undan lýsir þeirri stund. Það logar í glæðum en brátt er allt brunnið upp og kvöldkulið er napurt.

Fyrir okkur kristið venjulegt fólk er þessi mynd af Pétri mjög dýrmæt. Hún sýnir mynd af manni sem missir kjarkinn á ögurstundu en hann finnur það sjálfur og iðrast og grætur. En þarna gat hann ekki meira. Við lesum það líka að seinna hafði Pétur mikið hlutverk í hinum fyrsta söfnuði og við hann eru kennd tvö þeirra bréfa sem varðveitt eru. Við sjáum af þessu að fólkið sem vann að framgangi kristninnar í heiminum var venjulegt fólk, fólk eins og ég og þú. Fólk sem vill gera sitt besta en nær samt ekki alltaf alla leið, missir jafnvel kjarkinn og þarf að setjast niður og hugsa sinn gang.  Er sterkast þegar það stendur saman. En þannig verða kraftaverk í heiminum þegar fólk vinnur saman og hjálpast að, hver og einn er veikur en með samstilltu átaki vinnast sigrar. Þetta er gott að hafa í huga þegar við mætum ógn sem helst verður hægt að ná tökum á með því að ganga í takt um sinn.

 

4/9 Að bregðast trausti

4/9 Að bregðast trausti

Biblíutexti

3 Þá fór Satan í Júdas sem kallaður var Ískaríot og var í tölu þeirra tólf. 4 Hann fór og ræddi við æðstu prestana og varðforingjana um það hvernig hann skyldi framselja þeim Jesú. 5 Þeir urðu glaðir við og hétu honum fé fyrir. 6 Hann gekk að því og leitaði færis að framselja hann þeim þegar fólkið væri fjarri.(Lúk. 22:3-6)

47 Meðan Jesús var enn að tala kom flokkur manna og fremstur fór einn hinna tólf, Júdas, áður nefndur. Hann gekk að Jesú til að kyssa hann. 48 Jesús sagði við hann: „Júdas, svíkur þú Mannssoninn með kossi?“(Lúk.22:47-48)

3 Þegar Júdas, sem sveik hann, sá að hann var dæmdur sekur iðraðist hann og skilaði æðstu prestunum og öldungunum silfurpeningunum þrjátíu 4 og mælti: „Ég drýgði synd, ég sveik saklaust blóð.“
Þeir sögðu: „Hvað varðar okkur um það? Það er þitt að sjá fyrir því.“
5 Hann fleygði þá silfrinu inn í musterið og hélt brott. Síðan fór hann og hengdi sig.(Matt.27:3-5)

Hugleiðing

Engin persóna nýja testamentisins hefur hlotið jafn harðan dóm og Júdas. Það má segja að hann eigi sér engar málsbætur. Stundum hefur því verið haldið fram að hann hafi upphaflega verið meðlimur í róttækum hópi uppreisnarmanna sem stefndu að því að gera uppreisn gegn rómverjum, enda gerðist það einmitt nokkrum árum síðar. Hann hafi því viljað ögra Jesú til að verja sig og sína og þannig orðið fleirum hvatning til að láta til skarar skríða. Síðan er eins og augu hans ljúkist upp og hann geri sér grein fyrir gjörðum sínum, iðrun hans er slík að hann getur ekki lifað með sekt sinni. Júdas er sannarlega ekki eini maðurinn í veraldarsögunni til þess að drýgja glæp, gera eitthvað sem rangt er. Sjaldnast er einfalt svar við því hver orsökin er. Síðan er jafnvel algengara að fólk forherðist og horfist ekki í augu við gerðir sínar, finni sér leið til að afsaka sig og jafnvel að kenna öðrum um. Ekki síst þegar viðbrögðin eru í sömu mynt, reiði og hatur. En ekki mildileg orð sem segja samt það sem segja þarf. „Svíkur þú mannssoninn með kossi?“ Guðspjallið sjálft gerir enga tilraun til skýringar aðra en þá að Satan hafi náð tökum á gjörðum hans. Eitt er að minnsta kosti alveg víst að hið illa birtist ekki með horn og hala. Stundum er bara eins og óveðurský dragi fyrir sólu og allt er breytt. Það getur jafnvel og ekki síður komið sem koss á vanga. Hvernig, hvers vegna, við því er varla svar að finna. En víst er um það að þrátt fyrir góðan vilja og vandaðan undirbúning þá virðist alltaf vera einhverja að óvissu að finna, eitthvað sem fer úrskeiðis. Mótlæti sem mætir eins og þjófur að nóttu. Mótlæti kallar oft fram það besta í fólki. Það sem kannski er raunverulega illt, það er sviksemi og sjálfselska okkar mannanna, undirferli og baktjaldamakk. Þetta er ekki einfalt mál og verður ekki rekið út með grimmd og hörku, heldur eins Kristur kennir, að sigra illt með góðu.

3/9 Eiginhagsmunir / heildarhagsmunir

3/9 Eiginhagsmunir / heildarhagsmunir

 Þeir komu til Jerúsalem og Jesús gekk í helgidóminn og tók að reka út þá sem voru að selja þar og kaupa og hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna. 16 Og engum leyfði hann að bera neitt um helgidóminn. 17 Og hann kenndi þeim og sagði: „Er ekki ritað: Hús mitt á að vera bænahús fyrir allar þjóðir? En þið hafið gert það að ræningjabæli.“
18 Æðstu prestarnir og fræðimennirnir heyrðu þetta og leituðu fyrir sér hvernig þeir gætu ráðið hann af dögum. Þeim stóð ótti af honum því að allt fólkið hreifst mjög af kenningu hans. (Mark. 11: 14-17)

Musterið mikla í Jerúsalem var miðpunktur mikils helgihalds. Fólk kom alls staðar að til að færa fórnir samkvæmt ákvæðum lögmálsins. Að störfum var stór hópur presta og aðstoðarmanna. Þeir nutu góðs af þessum umsvifum og voru bæði ríkir og valdamiklir. Í stað þess að koma að heiman, um langan veg, með tilskilin fórnardýr svo sem lamb úr eigin hjörð eða dúfur, þá fannst mörgum þægilegra að geta keypt það  á staðnum. Sumir komu frá öðrum löndum og þurftu þá að skipta um mynt. Þannig smám saman varð til heilmikill markaður innan veggja musterisinis, víxlarar og dúfnasalar buðu fram þjónustu sína. Staður tilbeiðslu og lotningar var orðinn að risastóru markaðstorgi. Kannski hafði enginn ætlað sér þetta í upphafi en smám saman hefur þetta þróast og byggst upp. Orðið að iðnaði sem stór hópur reiddi sig á og vildi ekki sjá neinar breytingar þar á. En raunar var þess ekki langt að bíða að þessi  mikla bygging yrði rústir einar.

Þetta er þannig gömul saga og ný. Afmarkaður hópur kemst í aðstöðu til að nýta sér takmörkuð gæði. Þessi hópur efnast og eflist og hefur þannig aðstöðu og fjármagn til að styrkja stöðu sína enn frekar. Styðja til valda þau öfl sem viðhalda ríkjandi ástandi.  Ráða til starfa fagfólk sem hefur það verkefni að fegra ímynd þeirra og gera jafnframt tortryggileg sjónarmið sem ekki þjóna þeirra hagsmunum.

Þannig fer það að hagsmunir heildarinnar eru látnir víkja fyrr hagsmunum fámenns forréttindahóps. Réttlæti er fórnað á altari gróðahyggju. Grundvöllurinn gleymist, í asanum öllum að hamstra sem mest, muna menn ekki hvert ferðinni er heitið. Með sínum orðum  vildi freslarinn vekja sitt fólk af værum blundi en  eins og við þekkjum þá tekur fólk því mis vel að láta vekja sig.

 

 

2/9 Vonir og væntingar

2/9 Vonir og væntingar

„ 7 Síðan færðu þeir Jesú folann og lögðu á hann klæði sín en hann settist á bak. 8 Og margir breiddu klæði sín á veginn en aðrir lim sem þeir höfðu skorið af trjánum. 9 Þeir sem á undan fóru og eftir fylgdu hrópuðu: „Hósanna. Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! 10 Blessað sé hið komandi ríki föður vors Davíðs! Hósanna í hæstum hæðum!“(Mark. 11:7-10)

 

Pálmasunnudagur markar upphaf dymbilviku, þess tíma sem frá fornu fari hefur verið einn mikilvægasti tími í lífi kristins fólks.

Jesús kemur ríðandi á litlum ösnufola inn um borgarhliðið og inn í borgina. Starf hans hefur að mestu verið úti á landi en orðspor hans hefur farið á undan honum og margir eru farnir að binda við hann vonir. Þessi litla þjóð er undirokuð af erlendu hervaldi sem heldur öllu lífi í helgreipum. Menn horfa til gullinnar fortíðar sem raunar var sögulega séð örstuttur tími, fyrir um þúsund árum, þegar Davíð var konungur og sonur hans Salómon eftir hann. Lengst af hefur þessi litla þjóð verið ófrjáls og undir hæl erlendra stórvelda. Samt hefur hún haldið í vonina og trúin verið hennar haldreipi og undirstaða sjálfsmyndar. Nú er kominn fram maður sem talar af djörfung og fólkið flykkist um hann hvert sem hann fer. Er hann sá sem koma skal?
Innreið Jesú er eins konar listrænn gjörningur, hann veit vel hvað fólkið talar, hvað það hugsar og þekkir. Allir þekktu það minni þegar konungur kom heim úr sigursælli herför þá kom hann ríðandi á stríðsfáki og á eftir honum herlið hans, herfang af ýmsu tagi, þrælar og ambáttir. Fólkið veifaði pálmagreinum og söng sigursöngva. En það er blóðlykt af tákni valdsins og blikar á stál. Fagnaðarópin óttablandinn.
Það getur ekki meiri andstæðu en vopnlaus maður sitjandi á litlum asna. Á öllum tímum hefur almenningur þjóða vonast eftir betri tímum, meira frelsi, betri lífskjörum, meira öryggi. Margir telja sér best borgið undir sterkum leiðtoga sem stjórnar með harðri hendi og vílar ekki fyrir sér að beita valdi. Flestir vita þó að slík stjórnun er ekki í þágu þegnanna heldur þess sem fer með valdið og þess fámenna hóps sem  skákar í skjóli hans kinkar kolli og þiggur að launum bitlinga.

Þarna er Jesús að sýna það sem hann síðar sagði berum orðum: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi“. Hans markmið var og er annað og meira og ristir dýpra. Hver er undirstaða draumsins um betra líf, um frið og öryggi. 

Þekkingin, tækni og vísindi nútímans hafa fært okkur stöðugt fullkomnari tæki og raunar líka, enn öflugri vopn og stríðstól. Það sem mestu skiptir er því hver grundvöllur okkar lífsskoðana og framfaravilja er. Jesús Kristur kennir okkur að það er kærleikur og samkennd, virðing og umhyggja í garð náungans. Þau sem þannig vinna, stefna sér og sínu samfélagi í átt til betri tíma. Víða er svo að sjá sem valdhafar líti á þegna sína sem eins konar leikbrúður sem hægt sé að ráðskast með af vild. En svo finnast líka stjórnvöld sem ekki eru ánetjuð valdinu og þora að treysta þeim sem sérþekkingu hafa til að segja til og leiðberina á þeim sviðum sem þau þekkja best.

Sá sem ríður inn á sviðið sitjandi á litlum asna, hann þarf ekki að veifa sverði. Hann þekkir sitt vald og veit að það er á endanum það mesta. Þetta vald er máttur kærleikans.

 

1/9 Fordæmalaus tími

1/9 Fordæmalaus tími.

1 Þegar þeir nálgast Jerúsalem og koma til Betfage og Betaníu við Olíufjallið sendir Jesús tvo lærisveina sína 2 og segir við þá: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur. Um leið og þið komið þangað munuð þið finna fola bundinn sem enginn hefur enn komið á bak. Leysið hann og komið með hann. 3 Ef einhver spyr ykkur: Hvers vegna gerið þið þetta? þá svarið: Drottinn[ þarf hans við, hann sendir hann jafnskjótt aftur hingað.“

4 Þeir fóru og fundu folann bundinn við dyr úti á strætinu og leystu hann. 5 Nokkrir sem stóðu þar sögðu við þá: „Hvers vegna eruð þið að leysa folann?“

6 Þeir svöruðu eins og Jesús hafði sagt og þeir létu þá fara. 7 Síðan færðu þeir Jesú folann og lögðu á hann klæði sín en hann settist á bak. (Mark 11:1-7)

Jesús biður vini sína að finna fyrir sig lítinn asna, ösnufola, sem enginn hefur setið fyrr. Meira að segja segir á öðrum stað að þeir hafi líka teymt með honum móður hans. Hann var semsagt ótaminn og fylgdi enn móður sinni og hefði líklega tæpast verið hægt að teyma hann nema í fylgd með henni.  Hvers vegna skyldi þetta skipta máli og rata inn í ritningarnar? Getur það verið að með þessu sé verið að undirstrika merkingu þess að nú sé eitthvað að fara að gerast sem aldrei hefur áður skeð. Hinn ótamdi foli væri þannig tákn þess. Enginn hefur enn brotið vilja hans og mótað hegðun hans, hann er í þeim skilningi ennþá frjáls. Hann er óskrifað blað.

Mörgum hefur orðið tíðrætt um það undanfarið, að nú séu fordæmalausir tímar. Sannarlega eru þeir það. Aldrei hefur fleirum orðið það ljóst að mannkynið er allt undir sömu sökina selt. Siglir á sama báti markaða braut um himingeiminn. Veira virðir engin landamæri, hún sýnir okkur að í raun eru engin landamæri. Hið sama má segja um hlýnun, bráðnun, súrnun, mengun öll brýnustu viðfangsefni samtímans.

Nú þarf einmitt að leiða fram ótamda, óslitna fararskjóta og burðardýr sem vinna á annan hátt en áður var, fara upp úr gömlu götunum og finna nýjar leiðir.

Sagan af Jesú er ekki ný en hún opnar nýjar leiðir hugsunar , hverjum þeim sem leyfir henni að hreyfa við sér. Píslarsaga Jesú Krists er tímalaus, vegna þess að í henni er að finna allt litróf mannlegra tilfinninga og á vissan hátt mannlegs veikleika og styrkleika. Hallgrímur Pétursson ávarpar sál sína í passíuálmum sínum og bendir henni stöðugt á hvað megi læra af þessari dramatísku atburðarrás.

Enn má læra margt um mannlegar tilfinningar og mannlegt líf og leiðsögn Guðs. Sú eða sá sem veit hvar hann stendur, hver er grundvöllur lífsskoðana og heimsmyndar, sem þekkir sína eigin styrkleika og veikleika, er vel búinn til að leggja af stað í óvissuferð til móts við nýja tíma, án fordæma.

Helgihald

Helgihald í Háteigskirkju

Messað er alla sunnudaga kl. 11

Í messunni kemur söfnuðurinn saman til þess að eiga helga stund frammi fyrir Guði. Í Háteigskirkju hefur um langt árabil verið lögð á það áhersla að messa alla sunnudaga. Þegar talað er um messu, þá er þar með verið að gefa söfnuðinum til kynna að altarisganga er hluti af athöfninni.

 

Fyrirbænastund á miðvikudögum kl. 18

Fyrirbænastundir eru alla miðvikudaga, allt árið kl. 18 í Háteigskirkju. Stundirnar taka um 30 mínútur.

Allir eru velkomnir á bænastund.
Fátt er betra en að safna sér saman í miðri viku, hreinsa hugann og biðja fyrir ástvinum sínum.
Hægt er að skila inn bænaefnum með því að hringja í síma 511 5400 á opnunartíma kirkjunnar.

hafðu samband

kirkjan er opin alla virka daga kl 9-16

Viðtalstímar

Prestarnir okkar eru með viðtalstíma og hlusta á alla sem til þeirra leita

orgelsjóður

Draumurinn er að eignast nýtt orgel og til er orgelsjóður við kirkjuna sem tekur á móti gjöfum og áheitum. Hafið samband við kirkjuverði eða organista

fréttir

Allra nýjustu fréttir í kirkjunni okkar eru að við erum að vinna að nýrri vefsíðu.. Það er skemmtilegt verkefni, en nú þurfa allir starfsmenn og áhugamenn í kirkjunni okkar að leggja sig fram og hjálpa til með efni. Allir sem vettlingi geta valdið mega senda efni á netfangið hannavala@gmail.com 

Messur alla sunnudaga

Alla sunnudag kl 11. Allir hjartanlega velkomnir!

Gallerí Göng

Hrönn Björnsdóttir myndlistarmaður opnar sýningu sína Hlíðar, á laugardaginn 3. október kl 14. Sýningin stendur til 3. nóvember.